1045067_149869205203364_1968229091_n

Eilífar speglanir, vísindalegar athuganir , komu út á fullu tungli í júní 2013, hjá Tunglforlaginu, í 69 eintökum. Handritið skrifaði ég í vetrarbyrjun 2003 í Barcelona, handskrifaði það í þykka teikniblokk, á þykkan rjómalitaðan pappír, með blýanti, í skrifstöfum, dálítið barnalegum, því skriftstafaskriftin mín hefur staðið í stað og er næstum því eins og rithönd mín þegar ég var tólf ára; öðru máli gegnir um prentstafina og fleiri rithandarform, þau hafa þróast og breyst, sumar gerðir orðnar illlesanlegar sjálfri mér, en þessa tegund ættu allir sem lærðu að skrifa þessa gerð skrifstafa að geta lesið – það er langt síðan hætt var að kenna hana, nú er hún notuð í hönnun og myndlistarmenn nota hana gjarnan í teikningar. Síðan skrifaði ég handritið upp í tölvu. Lengi gekk það undir nöfnunum Athuganir og Appelsínusögur, til skiptis, Athugnar, Appelsínusögur, Appelsínusögur, Athuganir, blikk, blikk, ég sendi mömmu og vinkonu minni handritið, mamma prentaði það út í vinnunni. Sama vetur skrifaði ég part úr sögu sem tengist annarri skáldsögu, Hér, og heitir: Vísindalegar niðurstöður móður minnar. Einhvern veginn splæsast þessir titlar saman óvart. Dagur Hjartarson fann nafnið á bókina, í einum af textunum. Eilífar speglanir er: ljóð, prósi, ör-skáldsaga, ritgerð, sem fjallar um tvær manneskjur sem búa mitt á milli eyju í norðurhöfum og upphafsgarði mannlífsins, þ.e.a.s. samkvæmt Biblíunni. Ég-ið í sögunni er sífellt að velta vöngum. Og ég – ritari ég-sins – fór yfir handritið, bætti við textum og tók út kafla vorið n. 13, þeir á Tunglinu lásu yfir. Þetta var skemmtilegt, að skrifa verkið í vetrarbyrjun, þegar byrjar að kólna, þegar dagurinn styttist, og ganga frá því þegar dagurinn breiðir úr sér og tekur yfir nóttina og lofthitinn hækkar. Ég las prófarkir á sautjánda júní inni í herbergi veiðimanns, þar var t.d. riffill í læstri geymslu og ljósmyndir af höfðingjum upp um veggina. Vinkona mín las líka prófarkirnar á sama stað og var með mjög fínar athugasemdir.

~

Milla

Sagan um Millu kom út árið 2012. Þessi saga hefur verið lengst í smíðum af sögunum mínum, hingað til, hver veit hvað verður. Hún byrjaði í einhvers konar bríaríi vorið 2001, þegar ég var nýkomin heim eftir nokkra mánaðardvöl í New York. Sagan er til í mörgum gerðum. Ein vinkona las fyrstu gerðina, óvart, hana vantaði eitthvað að lesa, hún er lestrarhestur, hún hvatti mig til að halda áfram, ég varð undrandi, tók áskoruninni. Önnur vinkona mín las næstu gerð, á einni nóttu, stödd í sögufrægri borg, og ummerki borgarinnar birtast í fyrsta kaflanum, í nærbuxnamynstrinu. Vinkona mín var ánægð með söguna sem þá var full og enn fyllri en útgefna bókin af útúrdúrum, stór þáttur fjallaði um forseta Bandaríkjanna og eiginkonu hans, þau voru skáldsögupersónur, ekki byggðar á fyrirmyndum. Ég var á sama tíma að lesa um Abraham Lyncoln, og fleiri Bandaríkjaforseta: ævisögur Reagan, Hillarys, JFK… Svo geymdi ég Millu í mörg ár, byrjaði frá grunni aftur 2010/2011, ákvað að taka hana fyrir afþví hún var léttari en önnur saga, sem enn er óútgefin og er frekar þung; þ.e.a.s. tónn Millu er: light, og ég hafði gengið í gegnum þungbæra tíma, einhver ráðlagði að hvíla ofbeldið og hrottaskapinn. Sagan um sögu Millu er löng og verður ekki sögð í stuttu máli, ég læt staðar numið hér, kannski seinna, í virðulegu tímariti. Á síðari stigum vann ég söguna í Reykjavík, í Klettafjöllunum, inni í skógi, nálægt björnum og dádýrum, og í Berlín, nálægt tyrkneska markaðnum sem fæddi mig á meðan.

Ennnnn: Ó, Reykjavík, ó, Reykjavík, þú yndislega borg!

Milla er Reykjavíkursaga.

Hún gerist í maí 2001, á sama tíma og hún var upphaflega rituð, fjallar um 21. árs gamla fröken Reykjavík: Millu, sem skírð var í höfuðið á eldgamalli barnabók eftir Selmu Lagerlöf, og hún fjallar um vinkonu Millu Maríu, mömmu hennar Yrsu, vininn John, yfirkonuna Ernu Amelíu, ósýnilega þernu, ósýnilegan einræðisherra, ósýnilegan bílstjóra hans, sjoppumanninn, mömmu Maríu, foreldra Johns, sætu konuna á bókasafninu með gráu augun; pabbi Millu, bróðir og stjúpi koma líka við sögu; á meðan trén laufgast: það er ytri sögutíminn.

Sagan hefur frá upphafið heitið: Milla, ýmist með y eða i.

Hérna, hjá útgefanda Millu, má kaupa eintak bókarinnar:

http://www.forlagid.is/?p=608473

~

403609_10150520765192951_1383818681_n

Þessi bók er ekki skáldsaga, hún er byggð upp á nokkrum smásögum, einu ljóði og teikningum. Ég samdi fyrstu söguna um vináttu Marilynar Monroe og Gretu Garbo árið 2007, stödd á Eyrabakka, að semja sögu sem er óútgefin, og fjallar um flæking; er þá best að taka sér pásu og semja sögu sem gerist í lúxusíbúð í Los Angeles. Ég byrjaði örugglega áður að teikna Marilyn eftir ljósmyndum af henni, ég var að taka kópíur upp úr bókum, blöðum og tímaritum sem urðu á vegi mínum, og ekki í minni eigu. Því miður tók ég ekki kópíur upp úr Life Magazine frá sumrinu 1962 sem ég fletti í íbúð vinar míns í Barcelona í júní 2008. Hann hefur söfnunaráráttu. Ég ætla alltaf að sjá eftir því hér eftir. Ég hafði lesið allt um Gretu Garbo þegar ég var á milli tvitugs og þrítugs og skoðað hennar tímalausu fegurð í bíómyndum og á ljósmyndum. Við enda fyrri aldar og byrjun þessarar las ég allt um Marilyn Monroe, bíómyndirnar hafði ég séð og sá aftur, og safnaði þeim, keypti þær eina og eina í einni búð í Barcelona þegar ég bjó þar 03 til 05. Þá höfðu foreldrar mínir sagt mér sögur af Marilyn, og vitnað í fræg orð, þau áttu líka á segulbandsspólu langan þátt úr danska útvarpinu um Marilyn, ég hlustaði á þáttinn þegar ég var lítil. (Hlustaði líka á Woodstock-hátíðina af segulbandsspólu úr safni pabba míns. Ég hafði stórfelldar áhyggjur af eiginmanni Joan Baez sem sat í fangelsi, að sögn kvöldbarnapíunnar. Pabbi átti plötu með ljósmynd af sorgmæddu andliti hennar á albúminu, ég sá að sorgin stafaði af áhyggjum hennar vegna fangelsisdvalar eiginmannsins). Semsagt: foreldrar mínir elskuðu Marilyn, ég hafði heyrt að í einu hverfi New York borgar, Greenpoint, pólskt hverfi, hafi allir hinir ungu litið út eins og Marilyn og James Dean á sjötta áratugnum. Ég las meira um þær og eitthvað um Stalín og bíósýki hans, um eiginkonu Maós sem fór fyrir kvikmyndastofnun Alþýðulýðveldisins, skrifaði fleiri sögur um vináttu leikkvennanna, teiknaði fleiri myndir. Þetta er ekki fyrsta bókin með sögum og teikningum sem ég geri, fyrst kom sú fyrsta í desember 2008 í 47 eintökum. Stella bókaforlag gaf út Við tilheyrum sama myrkrinu, af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo, í desember 2011 og naut til þess stuðnings frá Hlaðvarpasjóðnum. Það var gaman að gera bókina með Stelluforlaginu, teikningarnar hengu upp á snúru í herberginu yfir tölvuborðinu eins og kínversk flögg, það má segja að útgefandinn hafi algjörlega haft veg og vanda að því að raða þeim upp, ég sá um að teikna ef upp á vantaði, gat myndaðist í strúktúrinn, kontínjúítið.

Sjá:

Bókina má kaupa í bókabúðum í miðbænum og ef skrifað er til:
sveinbjorg@frustella.org

~

11057_177034277950_4216425_n

Persónur úr þessari bók byrjuðu að birtast í handritum og hugmyndum c.a. árið 2003, sumar fyrr. Sagan gerist í ónefndri borg en hugmyndina af sögunni fékk ég í borginni Basel, þegar ég dvaldi þar í stuttri heimsókn haustið 2003, að lesa upp, með skáldum frá Grænlandi og Færeyjum. Þar steig stelpa á reiðhjóli, sem líka var herbergisþerna og dansari, inn í ímyndunaraflið og hjólaði með mig inn í söguna sem ég gerði fyrsta draft af sama haust. Það var eins og ímynduð stelpa elti mig uppi. En sagan gerist ekki í Basel. En hún gerist í borg við fljót, án raunverulegra eða sannsögulegra örnefna, á tíma þegar byrjað er að fangelsa skáld, listafólk, fræðimenn og fleiri sem verða þá kallaðir: óæskilegir, og koma þeim fyrir í e.k. búðum, listamannabúðum, í fyrirmyndarheimi, sem foringi landsins hefur hannað og teiknað. Sagan segir líka pínulítið af bóhemum, bóhemar hennar eru kannski sunnudagsbóhemar, nei, sumir eru meira en það. Í svona sögu, sem líka á að vera svoldið gamaldagsleg saga, verður að vera trúður og dansmey, stúdína, rík kona á rauðum sportbíl, ríkur einsetumaður sem býr – ekki úti í skóg – en í svefnbæ fjarri borginni – tveir ástmenn, annar er auðvitað blindur njósnari, hinn er góður og venjulegur, geðsjúkar konur og skáldkonur á brúm, skrýtnar útlenskar uppvaskarakonur, fólk sem íhugar sjálfsmorð, það er víst hvergi eins gott að drepa sig og í þessari borg, ljóðskáld, málarar á fylleríi, yngsti strákurinn sem er ungur og bjartsýnn og glaður og hleypur hratt og getur allt, yngsta stelpan sem búið er að loka inni á meðan hún væntir sín, einræðisherra og kona hans sem ritar upp allt sem maður hennar segir um framtíðarríkið, ég man ekki meir. Bókin kom út haustið 2009, þá var ég búin að lesa hana upphátt nokkrum sinnum fyrir vinkonu mína í nokkrum gerðum, ég var á spítala þegar ég fékk fyrsta eintakið, las það um nótt, settist svo við glugga og horfði út, kannski var ég tengd við dren.

Áhugasamir geta keypt eintak hérna:

http://www.forlagid.is/?p=600261

~

netkápa

Þessi saga kom út í litlu kveri í 47 eintökum, fyrsta bókin sem Stella bókaforlag gaf út. Þetta er smásaga sem ég myndskreytti. Hún fjallar um foreldra sem eru alveg í öngum sínum, og búnir á því, algjörlega, afþví barnið þeirra grætur viðstöðulaust, grætur, grætur, grætur, hættir ekki. Ég teiknaði myndirnar í bókina eftir ljósmyndum frá því ég var ungabarn, frá því útgefandinn, Sveinbjörg, var ungabarn, eftir myndum af frændsystkinum hennar sem ég fann í bunka og ætti líklega ekkert að uppljóstra um. Eina myndina teiknaði ég upp eftir ljósmynd sem Sveinbjörg fann á götu á Spáni.
Bókin er uppseld, til stendur að endurprenta nokkur eintök í viðbót. Hún er heimagerð, hómmeid, kannski algjörlega organísk og líklega beinlínis hættuleg heilsunni.

~

Á milli áranna 2004 og 2009 samdi ég sögur sem eru óútgefnar, nokkur leikrit sem hafa verið flutt eða leikin, tvær ljóðabækur komu út á tímabilinu.
Lesendur mega bíða eftir þessum sögum.

~

her

Ég skrifaði Hér á Spáni, hafði skrifað fyrstu handritin á Íslandi, í þeim var hænustelpan gömul, svo var eins og ég þyrfti að flytja til Barcelona, horfa á tré, svo var eins og að vinkona mín þyrfti að skera sig í puttann, á vél sem klippir myndir, svo var eins og ég þyrfti að fylgja henni slasaðri í skólann, setjast á kaffihúsið við hliðina á skólanum snemma morguns, sagan kom, hænukonan var ellefu ára.

Stundvíslega hvert laugardagskvöld slógu íbúar borgarinnar í potta og pönnur af svölunum heima hjá sér – í vetrarmyrkrinu – þegar dimmir fyrr á kvöldin – til að mótmæla þátttöku spænska hersins í stríðinu í Afganistan og stríðinu í Írak. Vinkona mín hafði farið með mig á mótmæli, eiginlega togað mig, fyrir framan sendiráð á Íslandi, til að mótmæla stríðunum, þar stóðum við örfá. Einhver tók sér það leyfi að stíga á gangstéttina fyrir framan húsið en ekki bara að halda sig við götuna og var handtekinn, ef ég man rétt. Nú endurrómaði pottaslátturinn um borgina. Kosningar voru haldnar og Spánverjar drógu herinn út úr stríðsátökunum.

Ég las dagblöðin, á Spáni var ég í betri snertingu við heimsmálin en oft áður. Þarna skrifaði ég bókina. Á sama tíma skrifaði ég leikritið Spítalaskip fyrir Nemendaleikhúsið, leikritið fjallar um stríð á milli kvenna og karla, alvörustríð, hugmynd sem ég hafði fengið löngu áður, þegar ég sagði einni vinkonu minni frá því að þegar ég var lítil hefði ég alltaf verið að kubba með legókubbum spítalaskip. Þaðan kom sú hugmynd og giftist hugmynd sem kom úr draumi sem fjallaði um að í þriðju heimstyrjöldinni yrðu gyðingarnir konur. Mig dreymdi stríðsátök, stelpur að fela sig fyrir yfirvöldunum í yfirgefnum skólabyggingum, koma sér undan á flótta á litlum vespum. Á tímabilinu las ég margt um stríð og vopnaburð, tímarit um byssur. Hér gerist líka í stríði, hún fjallar um hermann og litla stelpu. Bókin kom út 2004 og hefur líka komið út á sænsku og ensku.

Hérna má kaupa eintak bókarinnar á íslensku:

http://www.salka.is/baekur/skaldverk/islenskar-skaldsogur/vnr/5

Það má kaupa bókina á ensku á amazon.

~

5671-4001-175x266

Bókin eru tvær langar smásögur (tvær stuttar skáldsögur?), þær eru sitthvor hliðin á túkallinum. Hvort viltu þorskinn eða skjaldamerkið? Þær eru líka búnar til á þennan hátt: leikrit + prósi. -Jafntog t.d. Hamingjan hjálpi mér I og II. Leikrit með fáum leikurunum sem jafnvel má setja upp heima í stofu, án mikils átaks, án meira átaks en það útheimtir að setja saman IKEA húsgagn, þetta eru smá litlar tilfærslur sem hliðrunin frá bók og yfir í leik útheimtir. Í boði hússins. Í boði bókarinnar: Tvær sýningar á fjölskyldulífi. Og 2 f. 1. Önnur sagan fjallar um hjón og móður eiginkonunnar, hjónin þrífast á skít, eiginkonan er kannski ein uppáhaldspersóna mín af þeim sem ég hef skrifað – kannski má ekki gera upp á milli. Hin sagan fjallar um hjón og son þeirra sem kemur heim eftir langa fjarvera, líkt og týndi sonurinn, og er líka mikið týndur í sjálfum sér. Báðar sögurnar enda á svipaðan hátt, mér finnst best að bækur endi svona, mæli algjörlega með þessum eftirlætisenda, ég segi ekki meir, það er víst bannað að uppljóstra endum, þótt bækurnar séu tólf ára gamlar. Ég skrifaði sögurnar árið 1999, vann þær þá og árin 2000 og 2001. Ég samdi þær í stofu vinkonu minnar, við sameinuðum oft vinnuna, sátum við sitthvort borðið og unnum frá morgni til kvölds, í stofunni hennar, í alls konar sumarbústöðum sem ekki var hægt að vera í á veturna fyrir kulda og músum en við björguðum því, settum teppi og dýnur fyrir gluggana, líkt og í skotgrafahernaði, ólum mús á brenndum brjóstsykri, hlustuðum á glymjandann í brjóstsykurskálinni á næturna. Ég vann sögurnar líka heima hjá mér, á seinni stigum, þá var ég í matarklúbbi þar sem ég þurfti aldrei að elda, vinur minn sá um það, að elda handa okkur, nokkrum, góðan mat, enda hafði hann gengið í hústjórnarskóla og var með pungapróf, alltaf skyr í desert, og svo hljóp ég heim og hélt áfram að vinna eftir kvöldmat. Takk, kæri og horfni matarklúbbur. Það getur verið þrautinni þyngra að elda og kaupa í matinn. Þegar ég frumsamdi sögurnar þurfti ég að lifa í mjög sótthreinu umhverfi heilsunnar vegna, ég man ekki alveg smáatriðin þar að lútandi. Þessi bók hefur líka komið út á sænsku.

~

002-175x278

Elskan mín ég dey kom út árið 1997 og fjallar um föður og syni hans í húsi í heimsendarlegum þorpi, móðirin og dæturnar eru komnar til himna, sitja þar á bar, þar koma fyrir englar, Guð, og sögufrægir menn. Sagan var e.k. framtíðarsaga, þar sem líffæri fóru kaupum og sölum, á eyðilegum stað – á heljarþröm. Fyrsta handritið samdi ég og skrifaði haustið 1993 og var komin með handrit í ágúst 1994 sem hét Sonur Mjallhvítar, yfirlesarinn taldi best að geyma það. Sannarlega vantaði mig lykilinn inn í leyndardóm sögunnar, lykillinn beið mín á skrifborðinu mínu – sem sannarlega var á hjólum – haustið 1996. Svona sá ég framtíðina í x þorpi á heimsendarlegum stað. Í millitíðinni skrifaði ég aðra skáldsögu. Haustið sem ég samdi fyrsta handritið var æðislegt. Ég var að gefa út ljóðabók, sem heitir þerna á gömlu veitingahúsi, ég hafði endurskrifað leikritið Ástarsaga 3, ég hafði farið í skemmtilega upplestrarferð með Sjón og Braga Ólafssyni, til Kaupmannahafnar, Oslóar, Stokkhólmar, Uppsala og Lundar, ég kom heim og samdi söguna, vann um veturinn og næsta sumar í henni, byrjaði svo aftur með lykilinn í hendi og bjó þá í húsi ömmu minnar, skrifaði við skrifborð föður hennar, fór líka í Hveragerði í bústað um veturinn og skrifaði þar í um það bil 3 vikur og lauk við söguna á Hvolsvöllum, hjá systur minni, sumarið 97, í hjúkrunarfræðingarbústaðnum, systir mín vann þar um sumarið, á dvalarheimili staðarins. Vinkona mín lánaði mér fína bílinn sinn til að komast þangað austur, þar keyrði ég systur mína daglega í vinnuna, skrifaði á daginn, eldaði á kvöldin fyrir systur mína – ætli spaghetti bolognesa hafi ekki verið algengasti rétturinn – kom í bæinn, keyrði söguna til yfirlesarans áður en ég skilaði rauða bílnum. Ég las prófarkir í græna sófanum hennar ömmu við fína borðið hennar. Nokkrum mánuðum síðar var ég flutt, komin tímabundið til Ameríku, samdi þar leikrit og teiknimyndasögur, þá var bókin komin út og hafði gengið vel. Ég man að ég las upp úr bókinni í fyrsta sinn á Hallveigarstöðum, á fundi Kvenréttindafélagsins, mig minnir að Þórunn Erlu Valdimarsdóttir hafi líka verið að lesa upp, Inga Jóna hélt ræðu, mér fannst hún flott, kannski hélt Auður Eir líka ræðu, hún var skemmtileg. Eftir fundinn gekk ég heim, það var rétt byrjað að snjóa og snjóaði um nokkra sentímetra, örugglega fimm eða sjö á leið, frá Garðarstræti inn í Skerjafjörð. Ég var svoldið ein í heiminum, því fylgdi vellíðan og undrun. Titill bókarinnar fékk ég úr lagi eftir Benny More, kúbverskan tónlistarmann, lagið heitir Nena me muero, og var á kassettu sem vinur minn sendi mér, kassettuna hlustaði ég oft á þegar ég var að skrifa söguna í Hveragerði/Ölfusborgum, og hérna er lagið:

Og hérna er hægt að kaupa eintak bókarinnar, svo er líka hægt að kaupa hana í kilju, pínulítið ódýrari:

http://www.forlagid.is/?p=2050

Bókin hefur líka komið út á frönsku og sænsku, franska gerðin er ófáanleg.

~

P.s. ég veit ekki hvort eða hvenær bækurnar mínar komi út á e-bók. Bandarískur taugasérfræðingur segir að lesandi muni 30% minna af því sem hann lesi á kindli eða lesbretti eða æpadi en þegar hann les prentaða bók. Ég skal trúa þessu. Þó þetta hljómi eins og sagan sem ég heyrði þegar ég var unglingur. Foreldrar mínir áttu svart hvítt sjónvarp og strákur sem ég var skotin í en foreldrar hans áttu líka svart hvítt sjónvarp sagði mér að páfagaukar dæju fyrir framan litasjónvörp. Kannski les maður ekki skáldsögur til að muna þær.

~

Dyrnar-Þröngu1-175x269

Þetta þykir mér falleg kápa. Katrín Sigurðardóttir myndlistarkona gerði hana. Bókin kom út árið 1995, ég skrifaði hana á meðan Sonur Mjallhvítar lá í saltinu sem breytti titlinum í Elskan mín ég dey. Stóran hluta vann ég í bústað í Brekkuskógi, þökk foreldrum mínum, í samfloti við vinkonu mína, sem var að skrifa skáldsögu um ástkonur og systur annarrar ástkonunnar. Við komum þangað þegar snjór náði upp að mjöðmum, að kvöldi síðasta vetrardags, við fórum þaðan mánuði síðar, aðeins lítill snjóskafli átti eftir að þiðna fyrir framan húsið. Rjúpan sem við mættum þegar við bárum farangurinn inn í bíl vinkonu minnar var hvít, einhverjar litabreytingar í fjöðrunum voru að eiga sér stað. Ég var rosalega glöð, og við báðar, á leiðinni heim, með fullt af efni. Nokkru síðar fór ég til Kanada, stoppaði í nokkra daga í New York á leiðinni til baka, þegar ég kom heim keypti ég mér annan flugmiða, fór aftur til New York, kláraði þar bókina, í Greenpoint hverfinu og líka inni í herbergi á lofti við Broadway. Svo kom ég heim um miðjan september, fór með handritið beint til yfirlesarans. Þessi bók fjallar um konu og mann sem ferðast til Silkieyjar – ekki Sikileyjar – ath. lki en ekki kil – sem liggur í suðurhöfum. Maðurinn veikist, konan heldur ein af stað í leiðangur til borgar sem heitir Dyrnar þröngu. Þar má finna háþróaða tæknivædda kynlífsparadís. Konan kynnist strák og hún kynnist kellingu, hún lendir í einhvers konar (kynlífs) völundarhúsi, týnist þar til hún finnur leiðina út. Ég elskaði að skrifa þessa bók.

Hér á má kannski kaupa eintak: http://www.forlagid.is/?p=1804

~

Svartir-brúðarkjólar1-175x265

Fyrsta skáldsagan. Kom út 1992. Þetta var aðferðin: pizza, setja allt inn í, alls konar gerðir, allar tegundir, allt sem til er í húsinu og húsið er kannski kofi en ekki höll, hver veit, prósa, leikrit, ljóð, sönglög, svona texta, svona texta. Söguþráðurinn er sápuópera:

Mamma sem ber ofurást til sonar síns sem ber ofurhást til mömmunnar; þrjár systur, ein óhamingjusöm, ein sem stjónast er með (sú í miðjunni), ein uppreisnargjörn sem lætur loks að stjórn; pabbi sem flytur inn útlenskan ástmann sinn til landsins og giftir dóttur sinni; stelpa sem býr með ömmu sinni, en þessari stelpu fylgja ofurnátturulegir kraftar, auk þess sem hún gengur í svefni og hefur sjálfsmorðsástríðu, (ég mæli með að hver bók hafi a.m.k. eina persónu með sjálfsmorðsástríðu); amman er eins og amma í ævintýri, barnasögu: húsið hennar er stórt og fullt af gulli; munaðarlausa ömmustelpan og yngsta dóttirin, sú uppreisnargjarna, fella hugi saman. Allt getur gerst og þó ekki í þessu litla þorpi einhvers staðar í rassgati, á norðurhveli jarðar, eyjastemmingin er allsráðandi: egg og fiskur, fiskur og egg, eyjaveður: þoka. Pabbinn er sæfari sem dvelur langdvölum að heiman á suðrænum slóðum, kemur heim með útlendinginn sem hann gerir að tengdasyni sínum. Og þá koma fleiri útlendingar við sögu, einn þeirra nær í eina stelpuna og flytur hana út.

Söguþráðinn teiknaði ég upp, skrifaði ekki, sagan kom þannig til mín:

Ég var að brjóta saman þvott, það sækir að mér þreyta, ég leggst fyrir, persónurnar birtast og fyrstu atriðin. Svo varð ég að ná í blýant og blað – teikniblokk. Þetta gerðist í íbúð við Skerjasfjörð, stóran hluta sögunnar skrifaði ég í stofu vinkonu minnar, frá mánudegi til föstudags, frí um helgar, í marga mánuði. Í pásum á morgnanna gerðum við (ég) símaöt, fyrir tíma símnúmerabirta.

Ég var skömmuð fyrir bókina, ég skildi það ekki, ég var ekki hress með sjálfa mig þegar bókin kom út, hárgreiðslukona hafði sett permanet í hárið á mér og því gekk ég með húfu. Þá fannst mér og jafnöldru minni disaster að vera orðnar þrjátíu ára og tókum að okkur að fara í fýlu. Ég var ekki með síma, en svo fékk ég síma, það var erfitt að ná í mig á þessum árum, ég var ekki með svona bíbbtæki sem margir gengu með í vasanum, heldur ekki símsvara, ég var: annars staðar. Ég man þegar mér var boðið að koma einu sinni fram í sjónvarpsþætti, ég stóð í þessum nýja síma hjá heitum ofni og sveiflaði hurðinni með fætinum, hugsaði mig um, sagði: nei takk. Svo var mér boðið í annan sjónvarpsþátt að ræða bókina, sagði: já takk, fékk lánaða rauða indjánapeysu hjá tískuvinkonu minni, peysan átti að skyggja á permanetið, skyggingin misheppnaðist, framkoman líka. Ég var fátæk en ég hafði engar áhyggjur af því, nema þegar starfsfólk hitaveitunnar mætti til að loka fyrir hitann, þá hljóp ég af stað, í samningaviðræður, vegna þess að í húsinu bjó barn. Ef ég eignaðist pening keypti ég lambalæri, klæddi mig í kjól og eldaði fyrir dætur vinkvenna minna og vinkonur þeirra.

Svartir brúðarkjólar var óþekk bók að því er virðist, ég skildi ekki þrefið sem fólk fór að þrefa í mig, skömmunum linnti ekki fyrr en ég sendi vini sem hafði eins og fleiri skammað mig fyrir bókina, bók eftir Daniellu Steel í pakka með póstþjónustunni, eintakið var árituð: ég mælt með þessari fyrir þitt þroskastig. Vini mínum sárnaði – auðvitað – en kórinn þagnaði, ég þaggaði í einhverri möntru, já og svo gleymist líka eiginlega allt.

Bókin er skrifuð á anarkískan hátt: engar reglur, allar reglur.

Hérna má kannski kaupa eintak af bleiku bókinni sem amma mín frétti að væri klámbók og fékk frænda minn til að lesa upp úr fyrir sig, kafla og kafla, hún í safarístólnum, hann í þeim græna:

http://www.forlagid.is/?p=3751

~

[Mynd af kápu Einu sinni sagna]

Smásagnasafnið Einu sinni sögur kom út árið 1991, fallegt nafn á ári. Það finnst ekki nógu góð mynd af bókinni, ég tek af eintaki ljósmynd þegar ég hef tækifæri til. Ég veit ekki hvort hún fáist í búðum eða á bókamarkaðnum, ég sá eintak núna um daginn í fornbókabúð, það var í plasti, ósnert. Þannig var mál með vexti að einni vinkonu minni fannst sögurnar sem ég sagði, svona yfir kaffinu, svona dags daglega, svona heimasögurnar, ekkert sérstakar, og ég viðurkenni það fúslega og er henni algjörlega sammála, ég er ekki sögukona, og ég er málhölt, hennar sögur voru mjög fínar, þúsund sinnum betri, en stundum þó langdregnar, yndislega svæfandi; þessar heimasögur alltso, þessar sögur sem fólk er að segja frá því það vaknar á morgnanna og þar til það sofnar á kvöldin. Margir eru mjög góðir í þeim, eins og til dæmis mamma mín: ég afhendi henni óskarinn, en ég er líka dóttir hennar, ansi hlutdræg, hagsmunatengslin augljós, en ég held samt, eða vona, að fleiri séu mér sammála, alla vega ein manneskja, alla vega, ein sem ég þekki. Og þessari vinkonu fannst heimasögurnar mínar ekki nógu kjötugar, blóðidrifnar, eitthvað, óspennandi, í þrjósku minni ákvað ég að skrifa sögur úr eins litlu hráefni og hugsast mátti – kannski bara beinið? Það var þó ekki hugsunin, hugsun mín var ekki matarkynsleg á sínum tíma, heldur skrifa sögur sem héldu með eins fáum spýtur og þurfti. Og svo. Og svo og svo og svo: komu upphafsstefin frá Muggi, listamanninnum Guðmundi Thorsteinssyni (1891-1924), en árið eitthvað skrifaði ég leikrit fyrir þriðja árs nemendur Leiklistarskólans um Lísu í Undraland, og þar hjálpaði Muggur mér eða verk hans – þau leiddu mig inn i ævintýrið – og þegar ég hafði skrifað leikritið, sem var fyrir börn, var ég enn stödd í ævintýrinu, og fór að lesa þjóðsögur og Þúsund og eina nótt, sögur eftir H.C. Andersen. Þá var ég líka að æfa mig í frásögn, afþví ég byrjaði að skrifa leikrit og ljóð, ævintýrin kenndu mér að skrifa prósa og aðstoðuðu mig við að skrifa sögur. Einhvern veginn þannig. Ég myndskreytti stafrófið í bókinni, raðaði sögunum upp í stafrófsröð, það var einfaldast. Ég hef alltaf ætlað að gera Einu sinni sögur II, og ég hef skrifað einu sinni sögur eftir að þessi bók kom út, sögurnar hafa birst í tímaritum, dagblöðum og á dularfullum bloggum. Hvenær verður framhaldið? Úff, ég veit það ekki. Vonandi, vonandi, vonandi. Best að segja það oddatöluoft en ekki sléttatöluoft.

~

I_ferdalagi-175x265

Fyrsta prósabókin mín: smásögur. Fyrsta sagan sem heitir Margar konur fjallar um stelpu sem er alin upp af mörgum konum. Þó ég þekki lítið uppvöxt mömmu minnar held ég að kannski sé skyldleiki með þessari stelpu og mömmu, ég hef samt ekki hugmynd um það, þó mamma mín sé sögukona fjalla sögurnar hennar aldrei um hana sjálfa. Síðasta sagan fjallar um stelpu og konu sem hittast á suðurlandaslóðum og eiga í ástarævintýri. Svo voru sögur þarna á milli, um alls konar konur og einhverja menn, suma FBI-lega menn, eins og þeir sem komu síðast fyrir í Millu; ég hef þráhyggju fyrir special agents. Bókin kom út árið 1989, ég samdi fyrstu söguna á tölvu í íbúð við Hverfisgötu, síðustu söguna samdi ég í höndunum í kjallaraherbergi í Kaupmannahöfn. Ég er ekki sú í dag sem ég var þegar ég skrifaði þessa bók, kannski er þetta ekki fyrsta sögubókin mín?
Já, alveg rétt, undirtitillinn var einmitt: sögubók.